Ævintýrið um Babe Zaharias
Án efa ein fremsta íþróttakona tuttugustu aldarinnar, Mildred Ella Didrickson Zaharias var fædd í Texas árið 1911 af norskum ættum. Sem íþróttaundur á unga aldri fékk hún viðurnefnið ‚Babe‘ eftir hornaboltastjörnunni Babe Ruth, fyrir hæfileika hennar að slá hornaboltann úr augsýn. Hún toppaði í hverri þeirri íþróttagrein sem hún tók þátt í, eins og körfubolta, hornabolta, sundi, spretthlaupi, langhlaupi og tennis. Eitt sinn spurð hvort það væri eitthvað sport sem hún tæki ekki þátt í, svaraði hún: ‚Já, dúkkuleik‘.
Á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1932 vann hún gull í grindahlaupi og spjótkasti og silfur í hástökki og hafði þá áður unnið til margra verðlauna á sínum unga aldri.

Babe Zaharias
Bandaríski íþróttafréttamaðurinn Grantland Rice kynnti Zaharias golfið árið 1933 og fljótlega eftir það var hún farin að slá 1000 bolta á dag á æfingasvæðinu þótt hendurnar væru alsettar blöðrum eftir erfiðið. Henni var meinaður aðgangur að áhugamannamótum af USGA vegna stöðu sinnar sem atvinnuíþróttamaður og ferðaðist því á fjórða áratugnum um landið og spilaði á sýningarmótum við kylfinga eins og Gene Sarazen sem staðhæfði að hún væri besti kvenkylfingur sem hann hefði séð.
Sem litskrúðugur, ófriðsamur og sjálfelskur persónuleiki, þá var Babe ekki alltaf vinsæl meðal kvenmeðspilara, en hún gaf því lítinn gaum vitandi að á golfvellinum var hún raunverulega ósigrandi. Þótt hún væri grönn og af meðalhæð, þá gat hún slegið golfbolta lengra en 225 metra. Spurð hvernig hún færi að því svaraði hún: ‚þú verður að losa um magabeltið og láta vaða‘.
Babe fékk áhugamannaréttindi sín endurútgefin árið 1943 og þremur árum síðar vann hún Meistaramót áhugakvenna með því að sigra Clara Sherman 11/9 í 36 holu lokaleik. Næsta ár varð hún fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna Breska meistaramót áhugakvenna og árin 1946 og 1947 vann hún 17 mót í röð.
Babe gerðist atvinnumaður árið 1949, var ein af stofnfélögum ‚Ladies Professional Golf Association‘ og var einnig fyrsta atvinnukonan hjá golfklúbbi. 1948 og 1950 vann hún Opna US kvenna, titil sem hún vann aftur 1953 eftir að hafa jafnað sig á uppskurði vegna krabbameins.
Hún fékk inngöngu í frægðarhöll kvenkylfinga árið 1951. Árið 1955 hafði hún náð þeim árangri að hafa sigrað á 31 atvinnumannamóti, en fékk þær fregnir sama ár að krabbameinið hefði tekið sig upp og væri nú á lokastigi og ekki hægt að skera upp við því. Eftir að hafa sýnt mikið hugrekki í stríðinu við krabbameinið lést hún eftir miklar kvalir í september 1956, 45 ára gömul.
Babe var sem stelpa ósköp venjuleg dama í framkomu og klæðnaði, og þótt hún giftist glímumanninum George Zaharias 1939, þá var hennar nánasti og kærasti vinur meðgolfspilari hennar Betty Dodd, sem í augum margra staðfesti samkynhneigð hennar. Sem félagslegur frumherji þá braust Babe út úr þröngri spennitreyju um félagslegar væntingar og varð frumkvöðull fyrir væntanlegar kynslóðir bandarískra kvenna.
Hún var kosin kveníþróttamaður ársins í sex skipti af Associated Press, sem árið 1999 völdu hana einnig kveníþróttamann 20. aldarinnar
Þegar hún lést var fyrirsögn minningargreinar um hana í breska blaðinu The Guardian: ‚Andlát mesta íþróttamanns heimsins‘.