Arnold Palmer gegn Jack Nicklaus í Opna bandaríska mótinu á Cherry Hills golfvellinum 1960
Hinn 31 árs Arnold Palmer mætti ferskur eftir annan sigur sinn á Masters á Opna bandaríska mótið 1960. En er kom að lokahring mótsins var hann sjö höggum á eftir Mike Souchak, fimm á eftir Ben Hogan og fjórum höggum á eftir hinum ljóshærða, tvítuga áhugamanni að nafni Jack Nicklaus. Fyrir lokahringinn var hann búinn að reikna það út ef næði að fara á 65 höggum myndi hann vinna. Þegar blaðamaður efaðist um þetta í spurningu til hans, svaraði Arnold: „65 myndi gefa mér 280 og 280 vinnur Opna“.
Arnold sló 315 metra langt teighögg af fyrsta teig og fékk fugl á fyrstu holu, fugl á næstu þremur holum og var á 30 höggum eftir fyrstu níu. Á meðan dalaði lukka Mikes og Jack var aðeins á pari. Í fylgd með sínum litríku aðdáendum, svokölluðu „Arnie´s her“ slakaði Arnold aðeins á og lék seinni níu á 35 höggum, nákvæmlega eins og hann hafði spáð, og vann mótið. Ben missti þannig af því að vinna sinn tíunda titil á stórmóti með því að leika á sex og sjö á sautjándu og átjándu, á meðan Jack Nicklaus endaði tveimur höggum á eftir Arnie, í öðru sæti. Ben sagði síðan um Jack: Ég spilaði í dag 36 holur með strák sem hefði átt að vinna þetta mót með tíu höggum. Jack gerðist síðan fljótlega atvinnumaður og keppni hans við Arnold var bara rétt að byrja.