Golfíþróttin í upphafi

Í upphafi drottnuðu Skotar yfir skipulögðu golfi. Fyrsti golfklúbburinn, The Honourable Company of Edinburgh Golfers var stofnaður árið 1744. Upphaflegu golfreglurnar voru þrettán að tölu og voru skilgreindar af The Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews, sem var stofnaður árið 1754.

Golfkeppnir voru aðallega holukeppnir á milli klúbbfélaga. Fyrsta stórmótið, Opna breska mótið, var haldið í Prestwick í Skotlandi árið 1860. Willie Park vann það 36 holu mót með 174 höggum.

Opna breska mótið var haldið í Skotlandi fyrstu 34 árin.

Í þá gömlu daga fór útbreiðsla golfviskunnar aðallega fram með samtölum milli manna. Atvinnumaðurinn hjá klúbbnum var líklegur til að vera kennari, vallarstjóri, boltagerðarmaður, kylfusmiður, kylfuberi og þúsundþjalasmiður. Hann vann sér inn aukapening í áskorendamótum og gæti hafa hannað golfvöll eða tvo.

Á meðal gömlu golfhetjanna má nefna atvinnumennina Alan Robertson, Tom Morris eldri, Tom Morris yngri, Willie Park, Willie Park yngri og Harry Vardon. Þeir urðu sendiherrar golfsins með því að taka þátt í golfmótum, kenna, semja kennslubækur, hanna golfvarning og ferðast erlendis til frægðar og frama og kynna íþróttina.

%d bloggurum líkar þetta: